Innlent

„Við reyndum eins og við gátum“

Bjarki Sigurðsson skrifar
Ásrún Helga Kristinsdóttir er forseti bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar.
Ásrún Helga Kristinsdóttir er forseti bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar. Vísir/Ívar Fannar

Innviðaráðherra hyggst stofna sérstaka framkvæmdanefnd um málefni Grindavíkur vegna jarðhræringa og áhrifa þeirra á byggð þar og samfélag. Bærinn mun ráðast í einhverjar uppsagnir vegna breytinganna. 

Verkefni nefndarinnar snúa einkum að samfélagsþjónustu og framkvæmdum og viðgerðum á innviðum bæjarins í ljósi jarðhræringa á svæðinu. Nefndin heyrir undir innviðaráðherra en var stofnuð að beiðni bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar. Einhugur var meðal bæjarfulltrúa um að óska eftir þessari aðstoð.

Reyndu hvað þau gátu

Ásrún Helga Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar, segist líta björtum augum til framtíðar bæjarins.

„Grindvíkingar eru náttúrulega þekktir fyrir seiglu og við sáum fram á það að þetta myndi lengjast, þessar hamfarir. Kannski hefðum við átt að vera búin að biðja um þessa aðstoð fyrr. En við reyndum eins og við gátum og sáum að þetta var ekki fyrir neina sveitarstjórn eða bæjarfélag að takast á við,“ segir Ásrún.

Hér fyrir neðan má sjá blaðamannafund um breytingarnar í heild sinni.

Klippa: Blaðamannafundur Svandísar í heild

Vegna breytinganna mun Grindavíkurbær ráðast í einhverjar uppsagnir.

„Tekjustofninn, hann hefur lækkað. Við stöndum frammi fyrir því að þurfa að draga saman seglin. Þannig við horfum því miður fram á einhverjar uppsagnir,“ segir Ásrún. 

Ekkert bæjarfélag tekist á við svona áður

Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra segir stofnun nefndarinnar fordæmalausa í íslensku samfélagi.

„Þetta er náttúrulega stærðargráða af náttúruhamförum sem við höfum ekki þurft að eiga við með kerfisbundnum hætti áður, ekki af þessari stærðargráðu. Þarna erum við að tala um heilt bæjarfélag sem er í vanda og horfist í augu við áskoranir sem ekkert bæjarfélag hefur þurft að gera með þessum hætti,“ segir Svandís.

Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra.Vísir/Ívar Fannar

Fjármagn sem nefndin kemur til með að nota mun koma frá ríkinu.

„Við gerum ráð fyrir því í þessu frumvarpi að ákvarðanir séu þá og því aðeins teknar að fjármagn liggi fyrir,“ segir Svandís.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×